Jólaráðstefna 2018, nánar um erindin

Jólaráðstefna LÍSU samtakanna 2018

Nánar um erindin

Nýtt Landmat staðan í lok árs 2018. Frá 1096-2020 brýn nauðsyn á nýju mati
Friðþór Sófus Sigurmundsson, Þjóðskrá Íslands
Í fyrirlestrinum er lausleg upptalning um jarðamat á Íslandi frá öndverðu til nútíðar. Hægt er að færa rök fyrir því að mat á jörðum á Íslandi sé lítið breytt frá því tíundarlög tóku gildi 1096. Það er því löngu tímabært að meta óbyggt land á Íslandi en það hefur ekki verið gert með skipulögðum hætti frá því um miðja 19. öld. og þá var Matið að stórum hluta byggt á eldra mati.
Til þess að hægt sé að gera mat á óbyggðu landi og bújörðum þarf að afla gagna og gera greiningar á þeim. Bændasamtökin og Matvælastofnun halda utan um skýrsluhald í landbúnaði á Íslandi og hefur Þjóðskrá Íslands hafið samstarf með þeim. Kortlagning á ræktuðu landi stendur yfir hjá stofnuninni og er stefnt að því að sú vinna klárist fyrir áramót. Einnig stendur yfir gagnasöfnun fyrir golfvelli, friðlýst svæði og óbyggðar lóðir í þéttbýli. Orkumannvirki voru kortlögð síðasta vor og er þeirri vinnu lokið. Stefnt er að því að þau gögn verði opnuð fljótlega.
Afmörkun landeigna er mikilvægur þáttur í starfi Þjóðskrár en landupplýsingadeild vinnur að því hörðum höndum. Flokkun á landi er í vinnslu og mun sú flokkun byggja á gögnum frá vistgerðaflokkun Náttúrufræðistofnun Íslands, auk upplýsinga frá Matvælastofnun og Bændasamtökum Íslands.
Stefnt er að því að nýtt landmat liggi fyrir í maí 2020

Boðun fagnaðarerindisins: Notkun GIS í framkvæmdaverkefnum
Íris Anna Karlsdóttir og Sigurbjörn Bogi Jónsson; VSÓ Ráðgjöf
Fyrir okkur sem kynnst hafa notagildi og kostum GIS kerfa er það hulið hvers vegna innleiðing þess inn í framkvæmdaverkefni hefur ekki skilað sér að meira marki.
Óhjákvæmilega röskum við náttúrunni með þeim framkvæmdum sem ráðast þarf í, svo sem vegagerð, virkjunum o.s.frv. en með góðu upplýsingaflæði, nákvæmum gögnum má minnka þetta fótspor okkar í náttúrunni, auka skilvirkni og upplýsingaflæði framkvæmda.
Við sem störfum við landupplýsingar hjá VSÓ Ráðgjöf vinnum þvert á svið fyrirtækisins og leggjum okkar að mörkum við að innleiða GIS inn í fleiri verkefni.

Samfélag um opinn hugbúnað
Árni Geirsson, Alta
Farið verður stuttlega yfir eiginleika og notkun opins landupplýsingahugbúnaðar og síðan verður samtal við ráðstefnugesti um að stofna notendasamfélag þar sem notendur gætu borið saman bækur sínar og lært hverjir af öðrum.

Staða landupplýsinga hjá Skipulagsstofnun, skimað yfir nýleg verkefni og verkefni framundan kynnt Helena Björk Valtýsdóttir, Skipulagsstofnun

Veggreinir-kortlagning skemmda á vegum
Margrét Ósk Aronsdóttir og Hersir Gíslason, Vegagerðin
Veggreinir er tækjabúnaður sem settur er á bíl til að ástandsgreina vegi og vegyfirborð. Tækjabúnaðurinn samanstendur af jarðsjá (GPR), lidar, myndavélum (hita og lita), hröðunarmæli og GPS. Með gögnunum sem er safnað er hægt að greina skemmdir og hugsanlega hvað veldur skemmdunum. Meðal annars er hægt að greina hjólfaradýpt, raka og sprungur. Sumar greiningar er sjálfvirkar meðan aðrar reyna á sjónmat við úrlestur á gögnum eins og radargögnum. Nokkur hluti vegakerfisins var mældur upp með veggreininum í sumar og haust. Mikið gagnamagn fylgir þessum mælingum og hefur enn einungis verið unnið úr hluta gagnanna.