
COVID19 veiran
Covid-19 setur mark sitt á starfsemi LÍSU eins og svo flest annað. Við frestum málþingi sem átti að vera í maí um gervigreind og landupplýsingar fram á haust, en erum með á dagskrá Q -GIS námskeið 26. maí en munum fresta því ef þörf krefur. Haustráðstefna LÍSU verður haldinn 29. október.
Færri hafa sótt síðustu viðburði LÍSU vegna COVID-19 veirunnar og verður kynningarefni frá heimsóknunum á App4sea verkefninu og til Veðurstofunnar sent til félagsmanna vonandi fljótlega.
Útbreiðslu COVID-19 má sjá á korti John Hopkins háskóla og notkun dróna í vörnum og vöktun á COVID-19

Styrkir frá umhverfisráðuneytinu
LÍSU samtökin hafa undanfarin ár fengið styrki til sérverkefna frá umhverfisráðuneytinu.
Að þessu sinni fengu samtökin rekstrarstyrk að upphæð 300 þúsund krónur, styrk fyrir erlent samstarf 250 þúsund krónur, 320 þúsund krónur fyrir áframhaldandi vinnu við Upplýsingagátt og aðgengi að fræðsluefni um landupplýsingar. Samtökin fengu 500 þúsund krónastyrk til þess að kynna aðgerðir og skipulag á svið landupplýsinga á Norðurlöndum. Heildstæð stefnumörkun, framtíðarsýn og aðgerðaáætlun um þennan málaflokk, liggur fyrir hjá öllum Norðurlöndunum nema Íslandi. Ætlunin að kynna norrænar áherslur og reynslu af því að aðgengi að góðum gögnum er gulls ígildi.

QGIS námskeið Haldið verður Q GIS námskeið 26. maí fyrir áhugasama félaga, ef aðstæður leyfa, annars verður námskeiðinu frestað um sinn.
Látið okkur vita ef þið hafið áhuga og viljið skrá ykkur .

Kynningarfundur um App4sea
LÍSU-félögum var boðið á fróðlega kynningu á App4Sea verkefninu, sem miðar að því að bæta viðbrögð við olíuslysum í Norðurhöfum. Verkefnið er unnið með styrk frá Northern Periphery and Arctic Programme. Kortið er unnið i opnum hugbúnaði og verður opið til notkunar og frekari þróunar eftir þörfum hvers og eins – enda unnið fyrir almannafé. Á fundinum var sýnt hvernig kortið virkar og þróunarmöguleika þess. Stjórnendur verkefnisins munu vinna sérstakt efni um verkefnið og munu LÍSU félagar þá fá frekari upplýsingar og aðgang að verkefninu.

Glæsilegar móttökur í vinnustaðheimsókn til Veðurstofu Íslands
Mjög vel undirbúin og ítarleg kynning á gögnum Veðurstofu Íslands var haldin fyrir LÍSU félaga, 5. mars sl. Ragnar Heiðar Þrastarson, Esther Hlíðar Jensen, Bogi B. Björnsson og Tryggvi Hjörvar fluttu erindi hvert á sínu sviði. Gestir fengu gott yfirlit um gagnavinnslu um jarðskjálfta, ofanflóð, vatnafar og jökla. Einnig var kynnt svonefnt gagnauga, sem er gátt með upplýsingum frá athugunarstöðvum. Samantekt frá kynningunni og gögnum verður send til félaga fljótlega.

Fréttir frá aðalfundi LÍSU
Aðalfundur LÍSU var haldinn 27. febrúar sl. hjá Verkís. 17 manns mættu á fundinn. Á fundinum var kosið í stjórn LÍSU og er nú skipuð: Þórdís Sigurgestsdóttir, formaður, Faxaflóahafnir; Ásgeir Sveinsson, Kópavogi; Ásbjörn Ólafsson, Vegagerðin; Jóhann Thorarensen, Landgræðslan og Ása M. Einarsdóttir, Ríkiseignum. Nýir stjórnarmenn eru Hjörtur Örn Arnarson, Eflu og Þórarinn Jón Jóhannsson, Reykjavíkurborg. Skúli Pálsson, Verkís og Jóhannes Jensson, Umhverfisstofnun hættu í stjórn og eru þeim þökkuð vel unnin störf í þágu samtakanna og um leið eru nýir menn í stjórn boðnir velkomnir. Ársreikningar, skýrsla stjórnar og almenn stefnumótun voru samþykkt.