LÍSUFRÉTTIR APRÍL 2021

 

LÍSUFRÉTTIR, apríl 2021
Byrjendanámskeið í notkun Q GIS  11.maí 2021
Stafrænt aðalskipulag Eyja- og miklaholtshreppur
Námskeiðið er ætlað þeim sem ekki  hafa neina reynslu af notkun landupplýsingabúnaðar en vilja öðlast grunnþekkingu á hvernig unnið er með landupplýsingar í QGIS.  Á námskeiðinu verður farið er yfir helstu grunnaðgerðir og hugtök, auk þess sem þátttakendur fá góða innsýn í hvernig hægt er að nota landupplýsingar og landupplýsingakerfi til þess að leysa ýmis konar verkefni. Að námskeiði loknu ætti nemandi að vera orðin sæmilega sjálfbjarga hvað varðar helstu grunnaðgerðir og þætti í QGIS og geta unnið einföld verkefni.  Fyrirkomulag námskeiðins verður tilkynnt síðar með hliðsjón af ástandinu í samfélaginu vegna veirunnar. Nánari upplýsingar um námskeiðið
Norræn vefkynning um BIM  og GIS í sveitarfélögum
GI Norden heldur stutta vefkynningu fyrir félagsmenn í norrænu samtökunum þann 26. maí. Meðal annars er spurt: Er notkun og áskoranir með BIM þær sömu á öllum Norðurlöndunum? Upplýsingar um dagskrá og skráningu verða sendar til LÍSU félaga. Ef vel gengur verður framhald á norrænum vefkynningum um landupplýsingar hjá sveitarfélögum.
Styrkir frá umhverfisráðuneytinu
UAR
LÍSU samtökin hafa undanfarin ár fengið rekstrarstyrk og verkefnastyrki frá umhverfisráðuneytinu. Að þessu sinni fengu samtökin rekstrarstyrk að upphæð 400 þúsund krónur, styrk fyrir erlent samstarf 250 þúsund krónur og 240 þúsund krónur fyrir áframhaldandi vinnu við Upplýsingagátt og aðgengi að fræðsluefni um landupplýsingar. Þessir styrkir skipta miklu máli fyriir reksturinn og koma því að góðum notum.
Aðalfundur LÍSU var haldinn fimmtudaginn 25. febrúar 2021

Aðalfundur LÍSU var haldinn 25. febrúar í fjarfundabúnaði. 16 manns mættu.
Skýrsla stjórnar, ársreikningur fyrir árið 2020 og starfs- og fjárhagsáætlun 2021 voru samþykkt. Ása Margrét Einarsdóttir gaf ekki kost á sér til áframhaldandi stjórnarsetu og var Ómar Harðarson Hagstofu Íslands kosinn inn í sem nýr stjórnarmaður. Þórdís Sigurgestsdóttir var endurkjörin formaður.  Aðrir í stjórn eru áfram: Ásgeir Sveinsson, Kópavogsbæ, Ásbjörn Ólafsson, Vegagerðin, Hjörtur Örn Arnarson, Efla, Jóhann Thorarensen, Landgræðslan og Þórarinn Jón Jóhannsson, Reykjavíkurborg. Geir Þórólfsson
og Hersir Gíslason voru endurkjörnir skoðunarmenn reikninga. 
Vorráðstefna LÍSU samtakanna, haldin 11.mars sl.
Vorráðstefna LÍSU var haldin 11. mars í fjarfundabúnaði og gekk vel. Flutt voru 15 erindi og ráðstefnugestir voru 40. Myndin er frá stjórnstöð ráðstefnunnar á Grand Hótel og á henni má sjá upptökustjóra, fundarstjóra og nokkra fyrirlesara.