Nánari lýsing á erindum
Haustráðstefna LÍSU samtakanna
31.október 2019
Áskoranir í landupplýsingamálum
Þorbjörg Kr. Kjartansdóttir, LÍSA samtök
Þjóðfélög sem vilja hafa innviði fyrir þróun tækni með sjálfvirkni og burði til að greina og grípa til aðgerða vegna loftslagsbreytinga eru að taka á landupplýsingamálum af mikilli festu. Í erindinu er farið yfir atriði sem huga þarf að til þess að höndla möguleika og áskoranir sem við erum byrjuð að upplifa.
Ný grunngögn af Íslandi – Horfir til betri tíma?
Eydís Líndal, forstjóri Landmælinga Íslands
Árið 2018 skilgreindi vinnuhópur á vegum Sameinuðuþjóðanna lista yfir þau grunngögn sem hvert ríki er talið þurfa að eiga, nákvæm og uppfærð. Þessi grunngögn nýtast m.a. við mat á framgangi sjálfbærnimarkmiða SÞ en þó ekki síst sem hluti af skipulagi hvers lands. Á Íslandi hefur löngum verið skortur á nákvæmum uppfærðum grunngögnum sem allir hafa geta haft aðgengi að. Þetta hefur þýtt að Ísland hefur dregist aftur úr öðrum þjóðum í notkun landupplýsinga en með nýrri tækni eins og fjarkönnun hafa opnast nýjar leiðir til öflunar gagna auk þess sem stjórnvöld hafa sýnt því áhuga að til verði betri opin grunngögn. Landmælingar Íslands kynna því nýjar aðferðir, niðurstöður þarfagreiningar og drög að nýju hæðarmódeli.
Hver ber ábyrgð á hverju? – Um verkefni sem falla undir INSPIRE viðauka III
Þorvaldur Bragason, Orkustofnun
Í INSPIRE tilskipun Evrópusambandsins eru 34 málaflokkar landfræðilegra gagna skilgreindir í þremur viðaukum, þar af er 21 málaflokkur í viðauka III. Aðgerðaáætlun um innleiðingu tilskipunarinnar á Íslandi kom út á vegum umhverfis- og auðlindaráðuneytisins í desember 2013, þar sem sagt var að greina þyrfti stöðuna um hvaða stofnanir ættu að bera lykilábyrgð í hverjum málaflokki viðaukans. Í því hefur lítið gerst og margar þær stofnanir sem eiga gögn í þessum málaflokkum eru enn í óvissu um hvernig eigi að nálgast hlutverkaskipan stofnana og skipuleggja í framhaldi af því vinnu við mörg gagnasett í ljósi tilskipunarinnar. Í erindinu eru rakin dæmi um það hvernig þessi óvissa kemur fram í nokkrum gagnaflokkum innan Orkustofnunar og hvatt til þess að farið verði sem fyrst eftir tillögum aðgerðaáætlunarinnar frá 2013 varðandi ákvörðunartöku um hlutverkaskipan og skyldur.
Loftslag, landslag, lýðheilsa Viðauki við Landsskipulagsstefnu 2015–2026
Hrafnhildur Bragadóttir, Skipulagsstofnun
Landsskipulagsstefna felur í sér stefnu ríkisins í skipulagsmálum, til leiðbeiningar fyrir skipulagsgerð sveitarfélaga og aðra áætlanagerð um þróun byggðar og landnýtingu. Landsskipulagstefna er unnin á grundvelli skipulagslaga og reglugerðar um landsskipulagsstefnu.
Landsskipulagsstefnu er fyrst og fremst framfylgt í gegnum skipulagsáætlanir sveitarfélaga, þ.e. svæðis-, aðal- og deiliskipulag. Hún getur einnig haft áhrif á áætlanir stjórnvalda í einstökum málaflokkum sem varða landnotkun, svo sem um samgöngur eða orkumál. Þá getur hún einnig falið í sér tiltekin verkefni, svo sem leiðbeiningar- eða þróunarverkefni, til að hrinda markmiðum stefnunnar í framkvæmd.
Ráðherra fól Skipulagsstofnun sumarið 2018 að hefja vinnu við gerð viðauka við Landsskipulagsstefnu 2015–2026 þar sem mótuð verði nánari stefna um loftslagsmál, landslag og lýðheilsu í tengslum við framkvæmd skipulagsmála. Við mótun stefnunnar verði litið til Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun og jafnframt yfirfarin ákvæði gildandi landsskipulagsstefnu um skipulagsmál haf- og strandsvæða. Stefna um nýju viðfangsefnin – loftslag, landslag og lýðheilsu – kemur þannig til viðbótar og dýpkunar á þeirri stefnu sem fyrir er í Landsskipulagsstefnu 2015–2026. Farið verður yfir nokkur af framfylgdarverkefnum Landsskipulagsstefnu s.s. Mannvirki á miðhálendinu og Víðernaverkefni.
Að skipta landinu upp í 200 (tiltölulega) jafn fjölmenn hagskýrslusvæði: Helstu sjónarmið og áskoranir við afmörkun smásvæða í landsvæðaflokkun Hagstofunnar
Ómar Harðarson Hagstofa Íslands
Hagstofan er á þessu ári og því næsta að vinna að áframhaldandi þróun á hagskýrslusvæðaskiptingu landsins, sem hófst með gerð talningarsvæða í tengslum við stafræna manntalið 2011. Í þessu skrefi vinnum við í samstarfi við Byggðastofnun að gerð hagskýrslusvæða þar sem talningarsvæðunum (42 svæði með að meðaltali 8500 íbúum) er skipt frekar upp í svæði með að meðaltali 1700-1800 íbúum. Markmiðið er að hafa svæðin eins jöfn að stærð hvað mannfjölda varðar (frekar en landfræðilega) og hægt er, til þess að hægt sé að birta sundurliðanir á flestum hagtölum sem hafa landfræðilega tengingu, án þess að þurfa að fela töflureiti/dálka eða fella niður töflur eða umfjöllun um tiltekin svæði vegna persónuverndarsjónarmiða.
Í erindinu verður verkefnið kynnt, helstu sjónarmið og áskoranir. Sýnt verður uppkast að fyrstu skiptingu, fjallað um næstu skref en að loknu fyrsta uppkasti þarf að fara fram samráð við að minnsta kosti þau sveitarfélög sem skipt er upp í tvö eða fleiri smásvæði. Spurningar, ábendingar og umræður á ráðstefnunni um efnið eru meir en velkomnar.
Birting rauntímamæligagna á korti
Þórarinn Örn Andrésson, Vista
Hvernig Vista Data Vision hugbúnaðurinn vinnur með kortakerfi og rauntímamæligögn. Hvað þarf til að gera sveigjanlegt viðmót sem gagnast notendum í ólíkum verkefnum eins og opnum námum, jarðgöngum og fleira.
Skýjaborgir – Gögn um eignasöfn sótt í skýið
Ragnar Hólm Gunnarsson, Mainmanager
MainManager er notað við viðhald og rekstur fasteigna. Mikið hagræði felst í því geta sótt opinberar skráningar og notað þær í kerfinu. Það einfaldar skráningu og tryggir gæði skráninga og samræmi við opinber gögn. Farið verður yfir þær þjónustur sem í notkun.
Nýtt leiðanet almenningssamgangna –
notkun landupplýsinga við endurskipulagningu leiðanets
Ragnheiður Einarsdóttir, Strætó
Verkefnið Nýtt leiðanet snýst um endurskipulagningu leiðanets Strætó m.a. vegna fyrirhugaðrar Borgarlínu. Ákvarðanir um legu leiða eru m.a. byggðar á ýmsum landfræðilegum gögnum sem sett eru inn sem þekjur í forritið Remix og leiðirnar teiknaðar ofaná. Í Remix er einnig mögulegt að nota “Jane” til að sjá hversu langt er hægt að ferðast með leiðakerfinu frá ákveðnum stöðum innan mismunandi tímaramma.
AI and national level projects
Helgi Svanur Haraldsson, Advania Ísland
The talk will start with an introduction to what AI is and what it can do. We will look at the core out of the box technologies and how they can be used to generate business value and provide new opportunities. Finally, we will look at how AI is changing how we do things and the importance of national level projects such as geospatial mapping.
Automated and periodical large scale LULC classification using AI
Sydney Gunnarsson, Svarmi
Notkun á vélrænum lærdómi og landflokkun. Við hjá Svarma fengist þó nokkuð við það undanfarið og erum nýlega búin að hefja samstarf með Landgræðslunni þar sem að markmiðið er að safna saman gögnum og beita í kjölfarið vélrænum lærdómi (gervigreind) til þess að geta flokkað landið. Bæði tengist þetta verkefninu Grólind og sjálfbærni í nýtingu jarðvegs og gróðurauðlinda en kemur líka að kolefnisbókhaldi landsins seinna meir.
BIM verkflæði og SAGIS landupplýsingakerfi
Jens Hallkvist, GIS og Infrastructure ráðgjafi hjá NTI
Verkflæði þar sem Revit líkani verður komið fyrir á lóð með íslenskum hitum. Lauflétt kynning á SAGIS landupplýsingakerfi NTI sem tengis á Oracle gagnagrunni. SAGIS er landfræðilegt upplýsingakerfi fyrir sveitarfélög, almenningsveitur, stofnanir og fyrirtæki til sértækra nota. Sérhæft til umsýslu á landfræðilegum upplýsingum og staðreyndargögnum hvort sem er á skrifstofunni eða með spjaldtölvu á verkstað.
Kortagerð sem myndlist -future Cartography
Rúrí myndlistamaður
Rúrí hefur að undanförnu verið að vinna með kortagerð í sínum verkum. Hún notar hefðbundnar aðferðir kortagerðarmanna við gerð stafrænna korta, og byggir á upplýsingum úr opnum gagnasöfnum sem eru meðal annars unnin út frá gervihnattamyndum, svo sem hæðargögn úr ASTER GDEM gagnasafninu sem er í eigu geimvísindastofnunar Bandaríkjanna (NASA) og geimvísindastofnunar Japans (METI), en einnig er stuðst við önnur gagnasöfn eins og Marine Geoscience Data System og gagnasöfn um: þéttleika byggðar, ár og vötn og svo framvegis. Framtíðin er sýnd í kortum og horft á loftslagsbreytingar og hvaða áhrif þær geta haft t.d. á strandlínuna.