Notkun SQL til vinnslu og greiningar á landupplýsingum í gagnagrunnum -byrjendanámskeið

SQL námskeið hafa verið haldin undanfarin ár hjá LÍSU. Hér er lýsing á byrjendanámskeiði í notkun SQL. Ef þu hefur áhuga á fjarnámskeiði eða fámennu námskeiði í Reykjavík,láttu okkur vita og við leysum málið.

Venslagagnagrunnar eru algengir til geymslu á landupplýsingum en í flestum tilfellum þá er GIS hugbúnaður notaður til að setja inn gögnin, breyta þeim og vinna landfræðilegar greiningar. Flestir stærri gagnagrunnframleiðendur bjóða upp á viðbót við gagnagrunnana þannig að hægt er að vinna með landupplýsingar með SQL fyrirspurnarmáli. Með því að nota SQL þá gefst möguleiki á að því að vinna með gögnin beint án þess að nota sérstök GIS kerfi en gögnin eru samt sem áður aðgengileg til vinnslu í GIS kerfum. SQL fyrirspurnarmálið er sambærilegt á öllum stærri gagnagrunnum en nokkur munur getur verið á sértækum fyrirspurnum í SQL fyrir landupplýsingar þó svo að aðferðafræðin sé sú sama. Á námskeiðinu verður kennt á PostgreSQL gagnagrunn með PostGIS viðbót. PostgreSQL er opinn og ókeypis hugbúnaður og er ætlast til að nemendur mæti með fartölvu á námskeiðið með uppsettan PostgreSQL/PostGIS gagnagrunn.

Fyrri daginn verður farið yfir grunnatriði í SQL fyrir vinnslu á landupplýsingum í PostgreSQL. Uppbygging staðgagnagrunns í PostgreSQL/PostGIS. Uppbygging “Geometry” gagnatags fyrir staðgögn og hvað er í taginu (punktar, línur, polýgonar, bogar o.s.frv.), innsetning staðgagna, hnitakerfi, varpanir á milli hnitakerfa, rúmtenging (spatial join), einfaldar landfræðilegar fyrirspurnir (næsti nágranni, hvað er fyrir innan?, hvað er fyrir utan?), staðlykill (spatial index). Setja gögn út í “shape skrá” eða á annað gagnasnið. Tenging GIS kerfa við PostgreSQL/PostGIS.

Seinni dagur Seinni daginn verður farið í gagnavinnslu og úrvinnslu gagna. Notkun falla til að búa til og vinna með staðgögn t.d. búa til búffer, reikna þyngdarpunkt, sameina t.d. pólygona, nota pólygona til að klippa gögn o.s.frv. PostGIS föll (functionir) ásamt hefðbundnum SQL skipunum og föllum eru notuð til að búa til ný gögn út frá fyrirliggjandi gögnum. Villuleit í “geometry dálki” og samnburður á milli “geometry” dálka, hvort þeir eru eins eða ekki. Sannprófun á staðgögnum. View fyrir gögn sem eru staðvensluð og/eða með hefðbundnum venslum. Notkun á “triggerum” þar sem staðvensl eru notuð til að uppfæra gögn.

Fyrir undirbúning námskeiðsins er nauðsynlegt að fá upplýsingar um þekkingu væntanlegra þátttakenda á gagnagrunnsfræðum og landupplýsingavinnslu. Gert er ráð fyrir að þátttakendur hafi þekkingu á helstu skipunum í SQL og einnig að þeir þekki til landupplýsingavinnslu.

Leiðbeinandi er Tryggvi Hjörvar, gagnagrunnssérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands. Lágmarksfjöldi þátttakenda er 6 manns og hámark 12 manns.

Skráning: lisa@landupplysingar.is