Lýsigagnanefnd 1995-2014

Árið 2000 var Landlýsing, fyrsti íslenski lýsigagnavefurinn fyrir landupplýsingar opnaður á Netinu. Vefurinn er samstarfsverkefni Landmælinga Íslands og samtaka um landupplýsingar á Íslandi – LÍSA, en í hann hafa verið skráð lýsigögn fyrir yfir 200 landræn gagnasett hér á landi. Landlýsing var í meira en áratug eini lýsigagnavefurinn á Íslandi þar sem hægt var að fá yfirsýn yfir landupplýsingagögn í eigu stofnana og sveitarfélaga. Verkefnið hefur haft mótandi áhrif á umræður um landupplýsingamál á Íslandi á liðnum árum og er mikilvæg heimild um þróun gagna á sviði landupplýsinga hér á landi. Landlýsing byggir á lýsigagnastaðli sem hefur verið aflagður og til hefur orðið nýr landrænn lýsigagnavefur, Landupplýsingagátt, gerð í samræmi við alþjóðlegan lýsigagnastaðal og inntak INSPIRE tilskipunar Evrópusambandsins. Þó komið sé nýtt verkefni á þessu sviði sem ætlað er að taka yfir hlutverk eldra verkefnis, þá mun Landlýsing áfram hafa umtalsvert heimildagildi. Frá varðveislusjónarmiði verður áfram mikilvægt að halda opnu aðgengi að Landlýsingu á Netinu á næstu árum.

Þegar LÍSU samtökin eru stofnuð er því eðlilegt að meðal fyrstu verkefna væri að vinna að könnun á því hver væri með hvaða gögn. Slík könnun var gerð 1995-1996 og gaf yfirlit um helstu eigendur og framleiðindur landupplýsinga hér á landi.  Áfram var unnið að utanumhaldi um upplýsingar hvar landupplýsingar væru  og hvernig þær væru.

Efnisinnihald Landlýsingar

Í Landlýsingu var skráð þegar nýskráningu var hætt 2012, 201 gagnasett.  Aðilar að verkefninu voru 34, lýsigögnin voru fyrir gagnasett frá 33 aðilum, þ.e. 17 stofnunum og fyrirtækjum í eigu ríkisins og 16 sveitarfélögum og fyrirtækjum á vegum og í eigu sveitarfélaga. Eitt einkafyrirtæki var í þátttakendahópnum, en skráði ekki eigin gögn heldur gögn sem fyrirtækið hélt utan um fyrir sveitarfélag. Gagnasett frá opinberum stofnunum og fyrirtækjum í eigu ríkisins voru 82 (41%), en fjöldi gagnasetta í eigu sveitarfélaga og fyrirtækja á þeirra vegum voru 119 (59%).

Lýsigagnahugtakið var almennt ekki í umræðu á Íslandi undir síðustu aldamót. Það var þekkt í heimi bókasafna (Andrea Jóhansdóttir 1997) vegna almennra lýsigagna, en umræða um hugtakið jókst hins vegar eftir stofnun Samtaka um landupplýsingar á Íslandi (LÍSA) 1994 og lýsigagnanefndar á vegum samtakanna. Lýsigögn fyrir landupplýsingar byggðust á þeim tíma sem nú á sérstökum stöðlum og lúta á ýmsan hátt öðrum lögmálum en almenn lýsigögn í söfnum.

Starf í tengslum við Landlýsingu hefur allan tímann, samhliða upplýsingasöfnun um landfræðileg gögn hjá stofnunum og sveitarfélögum innan LÍSU samtakanna, gengið út á það að leiðbeina og útskýra mikilvægi samræmdrar skráningar upplýsinga um landfræðileg gögn, útskýra hugtök, eðli ólíkra þátta í vinnslu landfræðilegra gagna og mikilvægi þess að allir hefðu á einum stað aðgang að yfirliti yfir slík gögn á landsvísu.

Leave a Reply