Hvert er hlutverk samtakanna?

LÍSA samtök um landupplýsingar á Íslandi eru frjáls félagasamtök fyrir landupplýsingasamfélagið á Íslandi með það að markmiði að efla samstarf aðila með landupplýsingar og stuðla að aukinni útbreiðslu, notkun og samnýtingu gagna. Samtökin vinna mikilvægt starf við að kynna notagildi landupplýsinga í samfélaginu og sem sameiginlegur vettvangur fagaðila við að tengja saman starf og hugmyndir þeirra sem vinna á þessu sviði hér á landi.

LÍSU samtökin voru stofnuð 24. mars 1994, í kjölfar tilraunaverkefnis umhverfisráðuneytisins á sviði kortagerðar og stafrænna landupplýsinga, sem stóð yfir  á tímabilinu 1991-1993 með vinnunefndum á vegum fjölda stofnana, sveitarfélaga og fyrirtækja. Umhverfisráðuneytið beitti sér fyrir stofnun samtakanna með starfi sérstakrar undirbúningsnefndar, en samtökunum var ætlað að vera samstarfsvettvangur á sviði landfræðilegra gagnasafna og upplýsingakerfa.

Stjórn og framkvæmastjóri
Samtökin hafa sjö manna stjórn. Framkvæmdastjóri og eini starfsmaður LÍSU frá stofnun hefur verið Þorbjörg Kr. Kjartansdóttir, heldur utan um rekstur og innra starf, tekur þátt í erlendu samstarfi fyrir Íslands hönd og leitt starfið í umboði kjörinnar stjórnar. Félagsmenn vinna með stjórn og framkvæmastjóra í nefndum og vinnuhópum.

Hverjir eru í LÍSU?
Félagsmenn eru frá stofnunum, sveitarfélögum og fyrirtækjum sem eru leiðandi í framleiðslu, notkun og miðlun landupplýsinga og staðtengdra kortagagna. Félagsmenn gegna mikilvægu hlutverki í þróun á betra umhverfi fyrir samskipti með kortagögn, þeir hittast á  fundum, taka þátt í nefndarstarfi og greina vandamál og leita sameiginlegra lausna. Fulltrúarnir gefa góða mynd af notendum sem þróa og vinna með staðtengd gögn og birta þau á kortum.

Hver er starfsemin?
Starf LÍSU snýst um að auka aðgengi og samnýtingu landupplýsinga, en landupplýsingar sem eru upplýsingar tengdar staðsetningu, en það eru meðal annars grunngögn fyrir vöktun, mælingar, rannsóknir og framkvæmdir í umhverfi okkar. LÍSU samtökin eru einu frjálsu félagasamtökin á Íslandi sem hafa það að markmiði að efla samstarf aðila með landupplýsingar. Mikilvægur þáttur í samstarfinu er að miðla af reynslu og skýra verkferla fyrir samskipti með gögn. Þetta er brýnt viðfangsefni því ónákvæm gögn og óljósir verkferlar fela í sér meiri tíma í vinnu en annars þyrfti og oft erfitt mat á gögnum. Athuganir sýna að með góðum og nákvæmum grunngögnum er hægt að lækka byggingakostnað umtalsvert.

Vinnunefndir
Starfsemi LÍSU er margþætt, en grunnstoðir eru vinnunefndir, viðburðir, erlent samstarf og samráð við notendur. Helstu vinnunefndir eru orðanefnd, menntanefnd og mælinganefnd auk fleiri nefnda sem hafa starfað tímabundið. Nefndirnar hafa meðal annars skilað af sér mikilvægum samræmingarverkefnum eins og Orðalista LÍSU, lýsigagnavefnum Landlýsingu, verklagsreglum fyrir mælingamenn og landupplýsingastaðlinum ÍST 120.

Ráðstefnur, grasrótarstarf og vettvangur umræðu og nýjunga
Ráðstefnur eru haldnar vor og haust um það nýjasta í tækni og notkun landupplýsinga, vorið 2015 var t.a.m. haldin ráðstefna um landupplýsingar alls staðar- drónar alls staðar, vorið 2016 um málefni sveitarfélaga, vorið 2017 um menntamál og vorið 2018 um nýjungar. Haustráðstefna LÍSU á fastan sess meðal notenda og er heils dags viðburður með erindum, sýningum og umræðukaffi. Þá er haldið upp á alþjóðlegan landupplýsingadag 16. nóvember og haldin jólaráðstefna í lok árs.

Kynningarfundir og málþing
haldnir eru fundir um málefni líðandi stundar, ný lög og reglugerðir, tilskipanir og önnur málefni sem varða notendur landupplýsinga. Samtökin hafa kynnt  tilskipanir um endurnot opinberra upplýsinga og INSPIRE, fyrir innleiðingu hér á landi og tekið þátt í evrópskum samræmingarverkefnum um skráningu skipulagsgagna (Plan4all) og fasteignagagna  (EURADIN).

Endurmenntun og námskeið
Samtökin halda sérhæfð námskeið fyrir byrjendur og lengra komna notendur landupplýsinga um mælingavinnu, um gagnagrunnsvinnslu með landupplýsingar, skipulag gagnagrunna, gervitunglagögn og fleira. Unnið er með félagsmönnum að skipulagi nýrra námskeiða.

Erlent samstarf
 Samtökin taka þátt í starfi EUROGI, regnhlífasamtök landssamtaka um landupplýsingar í Evrópu. LÍSU samtökin taka einnig þátt í  samstarfi norrænna „LÍSU- samtaka“ GI Norden. Á þeim vettvangi eru ýmsir viðburðir: norrænn sumarskóli, ráðstefnur um afmörkuð þemu eins og heilsu, náttúruvá, einkamarkaðinn og opnar hugbúnaðarlausnir og opin gögn.

Starfsemin er fjármögnuð með aðildargjöldum félagsmanna og tekjum  af námskeiðum og ráðstefnum. Þá hafa samtökin tekið þátt í erlendum verkefnum og fengið verkefnastyrki frá umhverfisráðuneytinu. Grunnstoð rekstrar samtakanna eru aðildagjöld félagsmanna.

LÍSU félagar hafa skipst á að hýsa skrifstofu samtakanna og hefur það oftast verið í 3-5 ár í senn. Samtökin hafa verið hjá Vegagerðinni, Náttúrufræðistofnun Íslands, Landmælingum Íslands, Umhverfisstofnun, Skipulagsstofnun, Veðurstofu Íslands og eru nú hjá Verkís.

Hvers vegna að taka þátt í starfi LÍSU?
 Fyrst og fremst til að efla frjálsan vettvang notenda landupplýsinga og stuðla að framgangi landupplýsinga á Íslandi í allra þágu

En að auki :

  • taka þátt í samráðsfundum og nefndarstarfi, þar sem rædd eru verkefni og vandamál sem félagsmenn glíma við og stuðla þannig að þróun á verklagsreglum og öruggari samskiptum með gögn
  • fá til umsagnar gögn og frumvörp stjórnvalda sem varða hagsmuni notenda. Samtökin kynna og fjalla um aðgerðir stjórnvalda með félagsmönnum og fylgja eftir ábendingum sem fram koma.
  • fá afslátt á ráðstefnur og fundi
  • koma með ábendingar um áherslur og viðfangsefni fyrir námskeið og ráðstefnur samtakanna
  • kynna starfsemi sína, vörur og þjónustur, á viðburðum samtakanna
  • fá fréttabréf og aðrar upplýsingar um þróun innan málaflokksins innan lands og erlendis
  • taka þátt innbyrðis virku tengslaneti þar sem sambærileg viðfangsefni og vandamál eru rædd.