Vinnustaðaheimsókn til Landhelgisgæslunnar
Sjómælinga- og siglingaöryggisdeild er deild innan Landhelgisgæslu Íslands (LHG).
Sjómælingar og sjókortagerð er undirstaða siglinga við Ísland og lykilatriði þegar kemur að öryggi sjófarenda.
LHG ber ábyrgð á útgáfu íslenskra sjókorta samkvæmt skuldbindingum íslenska ríkisins skv. alþjóðasamningnum um öryggi mannslífa á hafinu. Þá sér LHG um milliríkjasamstarf fyrir Íslands hönd á sviði sjómælinga og sjókortagerðar. Í lögum og reglugerðum er kveðið skýrt á um hlutverk LHG á sviði sjómælinga og sjókortagerðar, en þau eru:
- Að sjá um sjómælingar (dýptarmælingar) meðfram strönd Íslands, utan hafna og innan íslenskrar efnahagslögsögu eftir því sem nauðsynlegt er talið á hverjum tíma.
- Annast gerð og útgáfu prentaðra og rafrænna sjókorta yfir hafsvæðið umhverfis Ísland, þ.e. aðsiglingakorta, strandsiglingakorta og yfirsiglingakorta. Jafnframt að uppfæra og endurnýja kortin eftir því sem þörf krefur.
- Gefa út tilkynningar til sjófarenda og önnur upplýsingarit og sjóferðagögn, s.s. sjávarfallatöflur, leiðsögubók (-bækur) fyrir sjómenn við Ísland, upplýsingarit um tákn og skammstafanir í sjókortum og kortaskrá.
- Safna gögnum sem tengjast sjómælingum og sjókortagerð og varðveita þau.
- Vera dómsmálaráðuneyti til ráðuneytis á fagsviðum sem stofnunin starfar á samkvæmt reglugerð þessari varðandi stefnumótun á sviði sjómælinga og opinberrar sjókortagerðar.