Hafðu samband
Hafðu samband

Lög samtakanna

Félagslög samþykkt á aðalfundi 23. febrúar 2017

Heiti

1.gr.

Samtökin heita LÍSA, samtök um landupplýsingar á Íslandi.

Hlutverk og markmið

2.gr.

Samtökin skulu vera hlutlaus og óháður vettvangur til umfjöllunar, framþróunar og útbreiðslu á landupplýsingum og landupplýsingakerfum á Íslandi. Samtökin eru fjárhagslega sjálfstæð.

Markmið samtakanna er að efla samstarf aðila með landfræðileg gögn. Samtökin eiga að vera vettvangur fyrir félagsmenn til umræðna og skoðanaskipta, veita upplýsingar til félaga og annarra um starfsemi sína, sinna kynningar og fræðslustarfi og taka þátt í erlendu samstarfi. Samtökin skulu stuðla að notkun íslenskrar tungu í landupplýsingafræðum.

Stjórn samtakanna sér um nánari útfærslu á ofangreindum markmiðum og verkefnum tengdum þeim. Stjórnin leggur almenna stefnumótun og markmið fyrir árlegan aðalfund samtakanna.

Aðild

3.gr.

Aðild að samtökunum er með tvennu móti. Annars vegar full aðild stofnana, fyrirtækja, sveitarfélaga og félagasamtaka, en hana hafa svo nefndir fulltrúar. Hins vegar almenn aðild sem einstaklingar hafa, nefnast þeir almennir félagar. Sami aðili með fulla aðild, getur átt marga fulltrúa og/eða almenna félaga í samtökunum. Ef um fleiri en einn fulltrúa er að ræða, er einn þeirra nefndur aðalfulltrúi en hinir viðbótarfulltrúar. Fulltrúar og almennir félagar hafa full réttindi í samtökunum, þ.m.t. atkvæðisrétt á fundum og kjörgengi. Fulltrúi má tilnefna varamann, sem kemur fram fyrir hönd fulltrúans í fjarveru hans og hefur sömu réttindi og skyldur.

  1. gr.

Þeir sem óska að eiga aðild að LÍSU skulu leggja fram skriflega ósk þar að lútandi til stjórnar samtakanna. Stjórnin tekur afstöðu til umsóknarinnar innan eins mánaðar. Tilkynna skal skriflega um breytingar á aðild og taka þær gildi um næstu áramót.

Sérhver aðili stendur straum af kostnaði við þátttöku fulltrúa sinna og almennra félaga.

Stjórn

5.gr.

Fulltrúar og félagar í samtökunum kjósa á aðalfundi 7 manna stjórn, formann og 6 meðstjórnendur úr röðum félagsmanna. Allir stjórnarmenn eru kjörnir til 2 ára, 4 kosnir annað árið og 3 hitt árið. Formann skal kjósa á aðalfundi úr hópi stjórnarmanna til eins árs. Samfelld stjórnarseta getur mest verið 8 ár. Varaformaður er staðgengill formanns. Stjórnin skiptir að öðru leyti með sér verkum. Formaður skal ekki sitja samfleytt lengur en 4 ár.

Formaður undirbýr fundi stjórnar, almenna fundi og stjórnar þeim. Hann hefur yfirumsjón með framkvæmd ákvarðana sem teknar eru.

Aðalfundur

6.gr.

Aðalfundur hefur æðsta vald í málefnum samtakanna og skal hann haldinn í febrúar ár hvert. Formaður opnar aðalfund og gerir tillögu um fundarstjóra.

Stjórnin skal boða til aðalfundar bréflega eða á annan tryggilegan hátt, með minnst tveggja vikna fyrirvara. Í fundarboði skal koma fram dagskrá fundarins og öll nauðsynleg gögn til að afgreiða mál á dagskránni, auk tillagna um afgreiðslu mála ef við verður komið.

Tillögur um breytingar á lögum skulu hafa borist formanni fyrir 10. janúar á undan aðalfundi ár hvert.  Drög að fyrirhuguðum breytingum á lögum skulu fylgja fundarboði. Aðalfundi er heimilt að gera breytingar á framkominni tillögu til lagabreytinga, þó ekki svo að meginhugsun tillögunnar sé raskað, þannig að telja megi nýja tillögu fram komna. Aðalfundur er lögmætur ef löglega er til hans boðað. Hver fulltrúi/félagi í samtökunum hefur eitt atkvæði á aðalfundi

Þessi mál skulu tekin fyrir á aðalfundi:

  1. a) Skýrsla stjórnar og störf vinnunefnda fyrir liðið starfsár.
  2. b) Endurskoðaðir reikningar samtakanna.
  3. c) Almenn stefnumótun.
  4. d) Breytingar á lögum.
  5. e) Ákvörðun árgjalds og starfs- og fjárhagsáætlun yfirstandandi árs.
  6. f) Kosning stjórnar.
  7. g) Kosning tveggja skoðunarmanna reikninga.
  8. h) Önnur mál.

Almennir fundir

7.gr.

Stjórnin skal boða til almennra félagsfunda og ráðstefna þegar þörf krefur að hennar mati. Jafnframt geta 5 fulltrúar/félagar, hið fæsta, óskað skriflega eftir fundi og geta þar fundarefnis. Skal þá stjórn bregðast við því innan tveggja vikna.

Á almennum fundum samtakanna er tekin afstaða til fram kominna tillagna að verkefnum, mótuð stefna í einstökum verkefnum og verkefnasviðum og teknar fyrir skýrslur um framvindu verkefna. Þá eru einnig tekin til umfjöllunar einstök málefni er stjórnin kýs að leggja fyrir.

Fundur samtakanna telst ályktunarfær sé minnst þriðjungur fulltrúa/félaga í samtökunum viðstaddur.

Stjórn samtakanna getur gefið áhugaaðilum kost á að sitja einstaka almenna fundi.

Fundir stjórnar

8.gr.

Formaður kallar stjórn saman til funda eða annar stjórnarmaður í umboði hans. Starfsmaður samtakanna, sbr. 15. gr., situr fundi stjórnar með málfrelsi og tillögurétt, en án atkvæðisréttar.

Fundarboð skal senda út viku fyrir boðaðan fundardag. Í fundarboði skal koma fram dagskrá fundarins og öll nauðsynleg gögn til að afgreiða mál á dagskránni, auk tillagna um afgreiðslu mála ef við verður komið. Einnig er heimilt að leggja fram á fundi gögn til kynningar á máli, sem ekki er á dagskrá, eða gögn varðandi mál sem ekki koma til afgreiðslu á fundinum.

Óski fulltrúi/félagi eftir því að sérstakt málefni verði tekið fyrir á fundi, ber honum að senda formanni fyrirliggjandi gögn málsins með nægum fyrirvara.

Fundur stjórnar telst ályktunarfær séu minnst 4 stjórnarmenn viðstaddir. Á stjórnarfundum ræður einfaldur meirihluti við afgreiðslu mála.

Starfshættir

9.gr.

Samtökin skulu fylgja í einu og öllu ákvæðum þessara laga. Leiki vafi á hvort starfað sé í samræmi við lögin skal leitað úrskurðar aðalfundar.

10.gr.

Samtökunum er heimilt að setja nefndir um einstök verkefni eða verkefnasvið. Sérstaklega skal gætt jafnvægis hagsmunaaðila og þess að setja hverri nefnd erindisbréf í upphafi.

11.gr.

Við afgreiðslu mála á fundum samtakanna og stjórnar skal leitað eftir sem mestri samstöðu og kappkostað að afgreiða mál samhljóða.

Ef sýnt þykir að samstöðu verði ekki náð á félagsfundum skal gengið til atkvæða um málið. Mál telst þá samþykkt náist samstaða meðal 2/3 fulltrúa/félaga á fundinum. Telji 1/3 hluti fulltrúa/félaga samtakanna slíka afgreiðslu eftir sem áður ekki viðunandi og leggi fram innan 3ja vikna skriflega ábendingu þar að lútandi skal málið tekið upp að nýju.

12.gr.

Samtökin starfa sjálfstætt að hlutverki sínu eins og þau eru tilgreind í 2. gr. en vinnur að úrlausn einstakra verkefna í nánu samstarfi við þá aðila sem fara með stjórn þeirra.

Fjármál

13.gr.

Samtökin setja sérstakt árlegt aðildargjald. Ákvörðun um aðildargjöld skal tekin á aðalfundi.

Aðalfulltrúar skulu greiða fullt aðildargjald, viðbótarfulltrúar hálft aðildargjald og almennir félagar tíunda hluta aðildargjalds.

 

Veita má afslátt frá aðildargjöldum samkvæmt vinnureglum. Vinnureglur og breytingar á þeim skulu staðfestar á aðalfundi.

14.gr.

Stjórn samtakanna ráðstafar aðildargjöldum samkvæmt árlegri fjárhagsáætlun og öðrum tekjustofnum í samræmi við skilyrði fjárveitanda.

15.gr.

Stjórn samtakanna getur ráðið til sín starfsmann sem gegnir hlutverki framkvæmdastjóra og sér um daglegan rekstur og bókhald.

Breytingar á lögum

16.gr.

Lögum samtakanna verður aðeins breytt á aðalfundi.

Slit

17.gr.

Tillögu um slit samtakanna skal leggja fyrir aðalfund og telst hún samþykkt ef 3/4 hlutar fundarmanna greiða henni atkvæði, enda sitji a.m.k. 3/4 fulltrúa/félaga samtakanna fundinn.

Eignir samtakanna skulu skiptast samkvæmt ákvörðun slitafundar. Ónotuðum mörkuðum fjármunum skal skilað.

Gildistaka

18.gr.

Lög þessi öðlast þegar gildi.

LÍSA

Samtök um landupplýsingar

Árleyni 22

112 Reykjavík

s: 6997918

lisa@landupplysingar.is

 

We are using cookies to give you the best experience. You can find out more about which cookies we are using or switch them off in privacy settings.
AcceptPrivacy Settings

  • Við notum vafrakökur á þessari vefsíðu

Við notum vafrakökur á þessari vefsíðu

Við notum vafrakökur til að safna og greina upplýsingar um notkun og virkni vefsíðunnar, til að geta notað lausnir frá samfélagsmiðlum og til að bæta efni og birta viðeigandi markaðsefni.