Hafðu samband
Hafðu samband

Hvað eru landupplýsingar

Landupplýsingar eru grundvallargögn um landið sem tryggja aðgang að upplýsingum um umhverfi og náttúru. Landupplýsingar eru einnig mikilvægar til þess að styðja stefnumótun og starfsemi stjórnvalda á ýmsum sviðum s.s. við eignaskráningu, skipulagsmál, náttúruvernd, vöktun náttúruvár, orkumál, rannsóknir og opinberar framkvæmdir. Landupplýsingar gagnast einnig almenningi og fyrirtækjum með margvíslegum hætti.

Staðfræðilegar og landfræðilegar grunnupplýsingar um Ísland eru því nauðsynlegar. Þetta eru upplýsingar á borð við grunnkort, landshnitakerfi, hæðarkerfi Íslands, stafrænar landupplýsingar og fleira. Landmælingar Íslands hafa það hlutverk að safna þessum upplýsingum og vinna úr þeim, varðveita þær og miðla þeim til þeirra er þurfa á þeim að halda.

Dæmi um landupplýsingar

Landupplýsingar lýsa hlutum; staðsetningu, afmörkun og eiginleikum. Landupplýsingar gefa upp staðsetningu hluta og fyrirbæra, segja til dæmis hvar mannvirki eru eða lýsa lögun landfræðilega fyrirbæra eins og skóga, lóða, vatna, vega eða landsvæða.

Landupplýsingar er hægt að tengja við staðsetningu (skilgreint sem punktur, svæði eða magn) á jörðinni, einkum upplýsingar um náttúrufyrirbæri, menningarlega og mannlega þætti. Staðsetningargögnin geta verið tiltekin hnit eða staðsetning með minni nákvæmni eins og svæði, t.d. heimilisföng, póstföng, stjórnslýslumörk eða svæði eða á landsvísu.

Að vita hvað gerist hvar og hvernig atburðir tengjast
Fólk spyr spurninga til þess að fá svör. Landupplýsingar veita svör við spurningum sem hafa landfræðilega skírskotun: Við getum spurt: Hvaða gönguleið er best fyrir barnið mitt í skólann?  Hvaða þjónusta er í næsta nágrenni við húsið sem við erum að hugsa um að kaupa?

Landupplýsingar eru mikilvægar, vegna þess að landfræðilegt rými er grundvöllur allra athafna mannsins. Allt gerist einhvers staðar, frá vöggu til grafar og á öllum sviðum lífs. Jákvæðir atburðir, eins og fæðing, skólaganga, gifting, vinna, ferðalög, en einnig neikvæðir atburðir eins og glæpir, hamfarir og dauði, allt á sér stað einhvers staðar.

Hvað er landupplýsingakerfi?

Margar spurningar hafa landfræðilega skírskotun. Við viljum ekki aðeins vita hvað er að gerast og af hverju, heldur einnig hvar eru hlutirnir að gerast. Um leið og skoðað er hvar atburðir gerast er hægt að skoða samhengi atburða sem eru tengdir sama stað eða svæði. Þessi athugun fer fram með samtengingu landupplýsinga í landupplýsingakerfum.

Í landupplýsingakerfi eru gögn tengd staðsetningu. Staðsetningu er hægt að skilgreina með hnitum eða á hefðbundnari hátt t.d. eftir heimilisföngum eða póstnúmerum.

Í landupplýsingakerfum eru gögn um auðlindir jarðar, náttúruvá og breytingar á umhverfinu vaktaðar og greindar.

Úrvinnsla með staðtengdum upplýsingum getur verið mjög einföld t.d.: finndu alla kínverska veitingastaði innan við 500 metra eða þá mun flóknari  t.d. að rannsaka samband á milli stefnu stjórnvalda og lífskjara á tilteknu svæði.

Með landupplýsingakerfi er hægt að kalla fram samhengi eða tengsl á milli upplýsinga út frá tiltekinni staðsetningu, t.d samband á milli varpstaða tiltekinna fuglategundar og gróðurfars eða landslags. Mismunandi þekjur af gögnum frá sama svæði er hægt að tengja saman og vinna með á marga vegu. Við þannig samtengingu eykst gildi upplýsinganna mikið. Það að tengja atburði og hluti við staði er áhrifamikið verkfæri í að skilja, rannsaka og greina þann heim sem við lifum í.   

LÍSA

Samtök um landupplýsingar

Árleyni 22

112 Reykjavík

s: 6997918

lisa@landupplysingar.is

 

We are using cookies to give you the best experience. You can find out more about which cookies we are using or switch them off in privacy settings.
AcceptPrivacy Settings

  • Við notum vafrakökur á þessari vefsíðu

Við notum vafrakökur á þessari vefsíðu

Við notum vafrakökur til að safna og greina upplýsingar um notkun og virkni vefsíðunnar, til að geta notað lausnir frá samfélagsmiðlum og til að bæta efni og birta viðeigandi markaðsefni.