Hafðu samband
Hafðu samband

Opin gögn

Mikilvægi opinna gagna

Eitt af helstu baráttumálum LÍSU er opinn aðgangur fyrir alla að gögnum sem opinberar stofnanir safna. Opin gögn er hugtak sem er skilgreint sem gjaldfrjáls framsetning gagna á opnu sniði sem öllum er heimilt að nota, endurnota og deila. Opinberir aðilar safna, framleiða, endurvinna og gefa út ógrynni upplýsinga á ólíkum sviðum. Aðgengi að slíkum upplýsingum getur haft mikið samfélagslegt gildi, ekki síst ef slíkt aðgengi er veitt með gagnvirkum, stöðluðum og stafrænum hætti. Með greiðara aðgengi að opinberum gögnum er mögulegt að endurnýta gögnin og auka þjóðhagslegt verðmæti þeirra, veita frumkvöðlastarfi og nýsköpun brautargengi í atvinnulífinu og stuðla að þróun nýrrar tækni og betri þjónustu samfélaginu til heilla. Magn gagna sem safnast saman á vegum hins opinbera hefur aukist margfalt á síðustu árum. Ný tækni og greiningartól, s.s. vélnám, gervigreind og hlutanetið, auka möguleikana til hagnýtingar gagna og til þróunar nýrra vara og þjónustu.

Núna er verið er að innleiða ESB tilskipun um opin gögn og endurnotkun upplýsinga frá hinu opinbera. Verið er að breyta eldri lögum í samræmi við þessa tilskipun. Hinni nýju tilskipun er ætlað að auka þessa hagnýtingarmöguleika, óháð nýrri tækni. Tilskipunin skilgreinir sérstaklega að tiltekin gagnasöfn geti talist mjög verðmæt. Til að tryggja hámarksáhrif þeirra og eins mikla notkun og mögulegt er, skulu þau gagnasöfn gerð aðgengileg gjaldfrjáls og með minnstu mögulegu lagalegum og tæknilegum takmörkunum. Jafnframt verður skylt að tryggja aðgengi að þeim með svonefndum forritaskilum (API).

Viltu taka þátt í starfi málefnahóps LÍSU um opin gögn

  Breytingar á núgildandi lögum

  Gildissvið tilskipunarinnar er víkkað út þannig að það nái einnig til upplýsinga frá opinberum fyrirtækjum vegna ákveðinnar starfsemi. Núgildandi lög hafa reyndar víðara gildissvið en eldri tilskipun ESB en rétt þykir að skýra orðalagið. Hafa ber í huga að rétturinn til aðgangs að gögnum byggir á upplýsingalögum, nr. 140/2012, á meðan lög um endurnot upplýsinga gilda um fyrirkomulag endurnota. Skilgreind eru mjög verðmæt gagnasöfn á sviði landupplýsinga, jarðfjarkönnunar og umhverfis, veðurfræði, hagskýrslna, fyrirtækja og eignarhalds fyrirtækja og hreyfanleika (e. mobility). Gagnasöfnin skulu vera aðgengileg án endurgjalds, tölvulæsileg, veitt um forritaskil (API) og veitt með magnniðurhali, þar sem við á. Í framkvæmdareglugerð (ESB) 2023/13, sem sett er á grundvelli tilskipunar (ESB) 2019/1024, er skilgreindur listi af mjög verðmætum gagnasöfnum og tilgreint nánar það fyrirkomulag sem gilda á um birtingu og endurnotkun gagnasafnanna. Framkvæmdareglugerðin tók gildi innan ESB þann 9. janúar sl. en kemur ekki til framkvæmda fyrr en 9. júní 2024. Innleiðingarferli framkvæmdareglugerðarinnar í EES er hafið en á þessari stundu er ekki ljóst hvort hún mun taka gildi á EES-svæðinu 9.júní 2024 eða síðar. Tilskipunin hefur að geyma ákvæði um að aðildarríki skuli setja sér stefnu og aðgerðaráætlun sem stefna að opnu aðgengi að rannsóknargögnum sem fjármögnuð eru af hinu opinbera. Birting slíkra gagna skal samrýmast FAIR-meginreglum um að rannsóknargögn séu finnanleg, aðgengileg, samvirkandi og endurnýtanleg (e. findable, accessible, interoperable og reusable). Til skoðunar kemur hvort breyta þurfi lögum um opinberan stuðning við vísindarannsóknir, nr. 3/2003, vegna ákvæða tilskipunarinnar um opin vísindi.

  Opin gögn skapa jákvæð samfélagsleg, efnahagsleg og pólitísk áhrif, t.d. í formi bættrar þjónustu, gagnsæis, nýsköpunar hjá hinu opinbera og á einkamarkaði og með bættri ákvarðanatöku opinberra aðila. Opinberar stofnanir nota mismunandi aðferðafræði og hugbúnað við að safna saman gögnum og við greiningu þeirra og mismunandi hugbúnað við framsetningu. Nauðsynlegt er að stuðla að samræmingu milli opinberra stofnana varðandi gagnavinnslu. Stefnt verður að því að öll ópersónubundin opinber gögn sem megi birta séu aðgengileg á stafrænu formi, án endurgjalds. Þá verður unnið að mótun stefnu og skipulags sem tryggir markvissar aðgerðir svo opin gögn skapi verðmæti fyrir samfélagið. Þannig má fjölga nýsköpunarmöguleikum, styrkja atvinnulífið, ýta undir rannsóknir og auka traust og gagnsæi í stjórnsýslunni.

  Ríkisstjórnin samþykkti í nóvember 2022 upplýsingastefnu stjórnvalda. Þar segir: ”Gögn og gagnasöfn skulu gerð aðgengileg með stafrænum hætti til hagnýtingar og úrvinnslu. Hægt er að nálgast gögn á opnum og viðurkenndum gagnasniðum með leitarbærum hætti eftir því sem kostur er.” Í júlí 2021 samþykkti ríkisstjórnin stafræna stefnu um þjónustu hins opinbera. Í henni kemur meðal annars fram að gögn hins opinbera skulu verða aðgengileg og hagnýtt að teknu tilliti til persónuverndarsjónarmiða og samþykkis einstaklinga. Í október 2022 var birt fyrsta útgáfa af öryggisflokkun gagna. Áhersla 1 í stefnunni er að gögn skulu vera opin nema annað sé ákveðið.

  LÍSA

  Samtök um landupplýsingar

  Árleyni 22

  112 Reykjavík

  s: 6997918

  lisa@landupplysingar.is

   

  We are using cookies to give you the best experience. You can find out more about which cookies we are using or switch them off in privacy settings.
  AcceptPrivacy Settings

  • Við notum vafrakökur á þessari vefsíðu

  Við notum vafrakökur á þessari vefsíðu

  Við notum vafrakökur til að safna og greina upplýsingar um notkun og virkni vefsíðunnar, til að geta notað lausnir frá samfélagsmiðlum og til að bæta efni og birta viðeigandi markaðsefni.